Málþing að Nýp á Skarðsströnd, laugardaginn 25. júlí 2009. Helga Kress, prófessor í almennri bókmennta-fræði við Háskóla Íslands, fjallaði um Ólöfu Loftsdóttur, sem þekkt er sem Ólöf ríka á Skarði, Skarðsströnd.
Um fáar miðaldakonur hafa myndast jafnmiklar sagnir og Ólöfu ríku Loftsdóttur (1410-79) en hún stýrði á sínum tíma stórbúi á Skarði á Skarðströnd ásamt bónda sínum Birni Þorleifssyni, sem talinn var ríkasti maður landsins. Flestar þessara sagna tengjast á einhvern hátt kynferði hennar, en hún var ekki bara „mulier spectabilis“ þ.e. glæsileg hefðarkona, eins og Kristján fyrsti Danakonungur orðar það í bréfi til Karls Frakkakonungs frá árinu 1457 eftir að hún hafði ásamt manni sínum heimsótt hann við hirðina, heldur einnig góð að svara fyrir sig. Fræg er sagan af því þegar þegar Englendingar sendu henni í poka sundurbrytjað líkið af manni hennar sem þeir höfðu drepið í Rifi. „Eigi skal gráta Björn bónda,“ sagði hún, „ heldur safna liði.“ Hún lét ekki sitja við orðin tóm heldur fór að Englendingum „með kænsku“, lét binda þá tólf saman á streng og hálshöggva eftir röð. Við þetta athæfi er sagt að hún hafi klæðst í hringabrynju yfir kvenbúningnum, þ.e.a.s. skipt um kyn. Í erindinu verða raktar helstu sagnir um Ólöfu, sem eru hvort tveggja í senn dramatískar og myndrænar, og leitast við að finna á þeim skýringar. Einnig fjallaði Helga í erindi sínu um bersögul skriftamálin sem Ólöfu hafa verið ranglega eignuð og miða að því að draga úr valdi hennar sem glæsilegrar og ríkrar hefðarkonu.
Húsfyllir var á málþinginu og spunnust ákaflega áhugaverðar umræður út frá erindi Helgu, margir tóku þátt. Gestir komu víða að, bæði
nágrannar og lengra að komnir, þáðu kaffi að loknu erindi og stöldruðu við að Nýp í dásamlegu veðri, spjölluðu og nutu dagsins.